miðvikudagur, 30. september 2015

Kjúklingaréttur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Einfaldur kjúklingaréttur sem er stútfullur af hollustu - gerist ekki betra!
Það eru án efa til margar útgáfur af þessum rétti og um að gera að prófa sig áfram með því sem er til í eldhúsinu.


Hollur kjúklingaréttur

Fyrir 4-5 manns


3 - 4 kjúklingabringur
1 sæt kartafla
1 poki spínat
1/2 - 1 askja litlir tómatar
1/2 - 1 rauðlaukur
1/2 - 1 krukka fetaostur
furuhnetur


Ofn hitaður 180°. Sæt kartafla skorin í sneiðar með hníf eða ostaskera. Sneiðunum raðað í eldfast mót og olía, salt og pipar sett yfir eftir smekk. Inn í ofn í 15 mínútur, eða á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.

Bringurnar skornar í bita, kryddaðar eftir smekk og steiktar stutt á pönnu.

Spínatið minnkar mikið í ofninum svo setjið nóg af því!

Eldfastamótið með kartöflunum er því næst tekið út úr ofninum. Spínati dreift yfir kartöflurnar og kjúklingabitarnir settir yfir spínatið. Tómötum og rauðlauk (bæði skorið í litla bita) er dreift yfir kjúklinginn og fetaosturinn ásamt smá af olíunni er hellt yfir í lokinn. Eldfastamótið er sett aftur inn í ofn í 30 mínútur.


Á meðan rétturinn er í ofninum er gott að rista furuhnetur á pönnu sem er svo dreift yfir þegar rétturinn er kominn út úr ofninum. Gott er að bera réttinn fram með balsamik gljáa.



Ég hef prófað að bæta við steiktum sveppum í réttinn sem kom vel út. Einnig hef ég skorið niður salthnetur og dreift út á í lokinn í staðinn fyrir furuhnetur, þar sem ég átti ekki furuhnetur, og það virkaði líka vel.
Eitt tips sem mér finnst toppa réttinn er að stilla ofninn á grill síðustu 5 mínúturnar eða svo. Þá brúnast osturinn aðeins og verður girnilegri :)

Mér finnst ekki þurfa að bera réttinn fram með meðlæti þar sem hann inniheldur allt það besta einn og sér. Ef ég væri samt að bjóða upp á hann í matarboði þá myndi ég líklega hafa salat eða hvítlauksbrauð til hliðar - en rétturinn einn og sér er alveg meira en nóg fyrir okkur fjölskylduna.

Þessi réttur er snilld! Hollur og einfaldur! Hef gert hann ótal oft og alltaf slegið í gegn hjá öllum á heimilinu. Rétturinn á vel við hvort sem það er sumar eða vetur, virkur dagur eða helgi. Mæli með því að prófa sem fyrst!

Njótið xx

fimmtudagur, 24. september 2015

Rice krispies kaka


Nú styttist í helgina... Um helgar finnst mér ekkert skemmtilegra en að prófa nýjar kökur eða rétti - nú eða skella í eitthvað sem ég veit að sé einfalt og allir elska! Þessi kaka er tilvalin í brunchinn, með kaffinu, í eftirrétt eða í klúbbinn. 
Ég hef gert þessa köku alltof oft til þess að deila henni ekki með ykkur en hún er mega einföld og ég hvet ykkur til þess að prófa.


Rice krispies kaka

Með bananarjóma og karamellusósu


Botninn:
100 gr smjör
100 gr suðusúkkulaði
100 gr Mars / Rolo / Galaxy / Karamellufyllt Pipp
4 msk síróp
4-5 bollar Rice krispies

Veljið stóran pott. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita. Bætið því næst sírópinu útí og hrærið þar til allt verður mjúkt. Takið pottinn af hellunni og hrærið Rice krispies varlega saman við súkkulaðiblönduna.
Hellið í form og inn í fyrsti í 
lágmark 30 mínútur.


Rjóminn:
1-2 pelar rjómi
1-2 bananar

Þeytið rjómann og skerið banananna í litla bita. Hrærið bananabitunum varlega saman við þeytta rjómann og dreifið því næst bananarjómanum yfir kökuna.


Karamellusósa:
1 poki Góu karamellukúlur
1/2 dl rjómi

Bræða kúlurnar og rjómann við vægan hita. Kælið sósuna í smá áður en henni er dreift yfir rjómann svo rjóminn bráðni ekki! Ekkert verra að geyma kökuna í kæli áður en hún er borin fram :)


Fyrir afmælið mitt gerði ég þessa uppskrift í cupcakeform.
Það kom líka mjög vel út og góð hugmynd fyrir stærri boð :)


Eitt sem er einmitt mjög þægilegt við þessa köku er að það er hægt að gera hana nokkrum dögum áður en hún er borin fram. Botninn er þá gerður þegar tími gefst og geymdur inn í frysti þar til um 20-30 mínútur áður en kakan á að vera borin fram. Mæli hinsvegar með að þeyta rjómann samdægurs svo hann sé sem ferskastur.
Svo ef þið eigið von á gestum en hafið ekki mikinn tíma fyrir bakstursdúllerí sama dag og þið eigið von á þeim þá er þessi kaka upplögð - enginn verður svikinn!

Njótið xx

sunnudagur, 20. september 2015

Hollur ís

Ég veit fátt betra en að kúra mig undir sæng yfir góðri mynd - sérstaklega þegar byrjað er að kólna og dimma úti. Oftar en ekki langar mig í ís til að toppa kósýkvöldið, en einmitt þá kemur bananaísinn sterkur inn! Einfaldur, fljótlegur og HOLLUR! Algjör snilld eftir sukk helgarinnar eða bara þegar maður vill gera vel við sig án samviskubits.


Bananaís

Grunnurinn:


3 - 4 stk. frosnir bananar
1-2 msk sykurlaust kakó
Skvetta af möndlumjólk ef þykktin er of mikil, smekksatriði


Byrja að mauka banana í matvinnsluvél eða blender þar til áferðin verður mjúk.
Bæta rest út í.



Út í þessa uppskrift er svo hægt að bæta við ýmsu til að breyta og bæta hana. Ég hef til dæmis sett út í:

Lífrænt hnetusmjör
    (Líka gott að sleppa kakóinu og setja bara hnetusmjör - bananahnetuís)
Möndlur eða hnetur
Dökkt súkkulaði (súkkulaðibitaís)


Svo er bara að setja í fallega skál og skreyta!!
Jarðaber - Bláber - Ananas - Bananabitar - Kókos - Dökkir súkkulaðibitar - Hnetur...... Veljið ykkar uppáhald :)




Ég hef einnig sett út á holla súkkulaðisósu sem harðnar

1 msk kókosolía
1 msk kakó
1/2 msk stevía í vökvaformi

Kókosolía brædd í potti og rest út í!


Í sósuna notaði ég Better Stevia dropana frá NOW með Dark chocolate bragðinu. Mjög sniðugt að eiga stevíu í nokkrum bragðtegundum inn í skáp!

Mæli með að þið setjið nokkra banana inn í fyrsti ekki seinna en núna!
Njótið xx


laugardagur, 19. september 2015

Tagliatelle með risarækjum

Í lok ágúst bauð ég vinkonum mínum heim í mat. Fyrir valinu varð pastaréttur með risarækjum sem ég fann á netinu, en ég hafði aldrei gert áður. Ég notaði tagliatelle pasta sem er klárlega uppáhalds pastategundin mín. Rétturinn vakti mikla lukku hjá öllum og ég mun pott þétt gera hann aftur!

Tagliatelle með risarækjum

Fyrir 6 manns




600-700 gr risarækjur
400-500 gr tagliatelle pasta
1 rauðlaukur, skorinn í strimla
1-2 rauður chili, skorinn fínt
4 hvítlauksgeirar, hakkaðir
1 dós saxaðir tómatar
2-4 msk rautt pestó
2 dl hvítvín
Ca. 1 msk rifinn parmesan ostur
Ca. 2 msk söxuð steinselja
1/2 sítróna - safinn
Salt
Pipar

Hvítlaukur og laukur steikt á pönnu.

Tómötum, pestó, hvítvíni og parmesanosti bætt við.
Salta og pipra eftir smekk og sjóða í nokkrar mínútur.
Kreista 1/2 sítrónu yfir.

Pasta soðið og rækjurnar steikar á pönnu með olíu. Rækjurnar eru tilbúnar þegar þær eru byrjaðar að verða bleikar á litinn. Því næst er öllu blandað saman.
Steinselju og chili stráð yfir í lokinn.


Borið fram með hvítlauksbrauði, rifnum parmesan osti og hvítvíni í 

Mér fannst líka gott að bera fram auka pestó í skál fyrir þá sem vildu hafa meira pestóbragð af pastanu, en það er bara persónubundið.



Vel hægt að prófa sig áfram með þennan rétt og bæta út í papriku eða öðru grænmeti. Fyrir þá sem fíla betur grænt pestó gæti það líka komið vel út í þennan rétt!


Ég sleppi aldrei eftirrétt í matarboðum, en eftir pastaréttinn ákvað ég að bjóða stelpunum upp á eftirrétt í léttari kanntinum. Fyrir valinu varð súkkulaðimús sem ég bar fram í fallegu Iittala glösunum mínum sem setti punktinn yfir i-ið eftir þennan frábæra pastarétt. Uppskrift af súkkulaðimúsinni kemur í annarri færslu.

Njótið xx


þriðjudagur, 15. september 2015

Prótein pönnukökur

Hér er uppskrift af einföldum súkkulaði prótein pönnukökum.
Hef gert þessa uppskrift ótal oft enda er hægt að borða þær með góðri samvisku eftir til dæmis góða æfingu eða í brunchinn um helgar.
Ég hef prófað mig áfram og breyti henni alltaf eitthvað - fer bara eftir því í hvernig stuði ég er í og hvað er til. Bæti við stevíu eða lyftidufti eða kakói og svo framvegis... Þið bara prófið ykkur áfram.


Próteinpönnsur

1/2 banani
1 egg
1 - 2 eggjahvítur
2 msk hafrar
1/2 - 1 skeið súkkulaðiprótein (Ég nota Nectar)
1 skeið kakó

Allt í blender eða hrært saman.
Pam sprey á pönnu - ekki of hár hiti!
Borða með berjum og ávöxtum og nóg af hitaeiningalausu Walden Farms pönnukökusírópi! Agave síróp virkar líka fyrir þá sem kjósa það frekar.





Fyrir þá sem nota ekki prótein þá er alveg hægt að sleppa próteininu. Hægt að skvetta smá mjólk að eigin vali í staðin fyrir próteinið eða prófa sig áfram með meira sykurlaust kakó eða súkkulaði stevíu. Ef stevía í vökvaformi er notuð þá verður að passa að nota ekki mikið! Mjög bragðmikil...nokkrir dropar duga.


Walden Farms pönnukökusírópið

Ég hef smakkað ýmislegt frá Walden Farms og pönnukökusírópið er fáránlega gott! Must að eiga inn í skáp ef sykurpúkinn læðist að manni. Hef til dæmis notað það út á hafragrautinn minn. Fæst meðal annars í Hagkaup.


Þetta magn hugsa ég fyrir eina manneskju, en uppskriftin gefur sirka 3-4 meðalstórar pönnukökur. Prófið ykkur áfram og njótið!


So it begins...


Hildur heiti ég og er tvítug úr Reykjavík.
Ég hef mikinn áhuga á mat og bakstri, en ég hef verið dugleg að prófa mig áfram í eldhúsinu. Enginn á heimilinu eldar jafn mikið og ég...
Margir hafa hvatt mig til að stofna matarblogg þar sem ég get deilt með ykkur snilldinni (oftast) sem ég kalla fram í eldhúsinu.

Uppskriftirnar fæ ég héðan og þaðan og breyti og bæti þær svo að mínum smekk. Þær eru bæði hollar og óhollari - enda er allt gott í hófi og lífið væri svo sannarlega tómlegt án súkkulaðis. Flestar eru þær einfaldar svo allir ættu að geta leikið þær eftir!

Vonandi veitir bloggið ykkur innblástur til þess að prófa ykkur áfram í eldhúsinu :)