Það eru án efa til margar útgáfur af þessum rétti og um að gera að prófa sig áfram með því sem er til í eldhúsinu.
Hollur kjúklingaréttur
Fyrir 4-5 manns
3 - 4 kjúklingabringur
1 sæt kartafla
1 poki spínat
1/2 - 1 askja litlir tómatar
1/2 - 1 rauðlaukur
1/2 - 1 krukka fetaostur
furuhnetur
Ofn hitaður 180°. Sæt kartafla skorin í sneiðar með hníf eða ostaskera. Sneiðunum raðað í eldfast mót og olía, salt og pipar sett yfir eftir smekk. Inn í ofn í 15 mínútur, eða á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.
Bringurnar skornar í bita, kryddaðar eftir smekk og steiktar stutt á pönnu.
![]() |
Spínatið minnkar mikið í ofninum svo setjið nóg af því! |
Eldfastamótið með kartöflunum er því næst tekið út úr ofninum. Spínati dreift yfir kartöflurnar og kjúklingabitarnir settir yfir spínatið. Tómötum og rauðlauk (bæði skorið í litla bita) er dreift yfir kjúklinginn og fetaosturinn ásamt smá af olíunni er hellt yfir í lokinn. Eldfastamótið er sett aftur inn í ofn í 30 mínútur.
Á meðan rétturinn er í ofninum er gott að rista furuhnetur á pönnu sem er svo dreift yfir þegar rétturinn er kominn út úr ofninum. Gott er að bera réttinn fram með balsamik gljáa.
Ég hef prófað að bæta við steiktum sveppum í réttinn sem kom vel út. Einnig hef ég skorið niður salthnetur og dreift út á í lokinn í staðinn fyrir furuhnetur, þar sem ég átti ekki furuhnetur, og það virkaði líka vel.
Eitt tips sem mér finnst toppa réttinn er að stilla ofninn á grill síðustu 5 mínúturnar eða svo. Þá brúnast osturinn aðeins og verður girnilegri :)
Mér finnst ekki þurfa að bera réttinn fram með meðlæti þar sem hann inniheldur allt það besta einn og sér. Ef ég væri samt að bjóða upp á hann í matarboði þá myndi ég líklega hafa salat eða hvítlauksbrauð til hliðar - en rétturinn einn og sér er alveg meira en nóg fyrir okkur fjölskylduna.
Þessi réttur er snilld! Hollur og einfaldur! Hef gert hann ótal oft og alltaf slegið í gegn hjá öllum á heimilinu. Rétturinn á vel við hvort sem það er sumar eða vetur, virkur dagur eða helgi. Mæli með því að prófa sem fyrst!
Njótið xx
Engin ummæli:
Skrifa ummæli