föstudagur, 13. nóvember 2015

Berjabomba

Það hafa eflaust margir gert sína útgáfu af þessum bombu eftirrétti, en hér kemur aðferðin sem ég nota alltaf. Rétturinn er mjög fljótlegur í undirbúningi svo hann er algjör snilld þegar skyndilega gesti ber að garði - eða þegar þú hefur engan tíma fyrir kökustúss. Getur ekki klikkað og allir borða hann með bestu lyst!



Berjabomba


1 pakki kókosbollur
1 marengsbotn
500 ml rjómi
1 lítill Nóa Kropp poki
Ber að eigin vali


Ég kaupi tilbúinn marengsbotn í Bónus - einfalt og fljótlegt ;)

Byrja á því að skera hverja kókosbollu í 4 bita og raða þeim í eldfast mót. 


Næst þeyti ég rjóma og brýt svo niður næstum heilan marengsbotn og blanda út í rjómann. Næstum heill poki af Nóa kroppi er svo hrært saman við rjómablönduna. 


Rjómablandan er því næst sett yfir kókosbollurnar í eldfasta mótinu. Nóg af berjum dreift yfir rjómann að lokum.



Ég notaði jarðaber, bláber, rauð vínber og græn vínber. Einnig er gott að nota hindber, brómber og blæjuber svo dæmi sé tekið - en blæjuberin gefa mjög fallegan lit. 
Ég nota oftast meira af berjum en sést á þessum myndum (því ég elska ber) en ég átti því miður ekki nógu mikið af fallegum berjum í þetta skiptið...


Ef þið gerið réttinn fyrr en þið ætlið að bera hann fram þá mæli ég með því að setja berin yfir rjómann bara rétt áður en rétturinn á að vera borinn fram.


Einnig er gott að bræða súkkulaði og dreifa yfir berin að lokum - skella svo réttinum inn í ísskáp svo súkkulaðið harðni. Mér finnst Nóa kroppið oftast nóg en ef þið eruð í stuði fyrir meira súkkulaði þá mæli ég klárlega með smá punkti yfir i-ið :)


Mega fljótlegur og gúrme eftirréttur sem ég hvet ykkur til að prófa við fyrsta tækifæri!
Njótið xx


Engin ummæli:

Skrifa ummæli