föstudagur, 6. nóvember 2015

Fylltar sætar kartöflur

Hollur og dúndur góður réttur - sérstaklega fyrir þá sem elska sætar kartöflur eins og ég! Skemmtileg tilbreyting frá venjulegum "kjúlla og sætum". 

Auðvelt er að leika sér með fyllinguna - Til dæmis er sniðugt að prófa að nota nýrnabaunir í staðin fyrir gular baunir og bæta við sveppum eða öðru grænmeti.

Einnig er mjög gott að setja smá saxaðar döðlur út í fyllinguna.



Fyllt sæt kartafla

Fyrir tvo



1 stór sæt kartafla
1/2 rauðlaukur
1/2 paprika
1/2 dós gular baunir
1 stór kjúklingabringa
Fetaostur
Rifinn ostur
Salt og pipar




Sæta kartaflan skoluð og skorin í tvennt. Sett í pott og soðin/gufusoðin í 20-30 mínútur. Þegar kartaflan er orðin frekar mjúk er álpappír settur undir og skafað innan úr henni (það sem er skafað innan úr er notað í fyllinguna) - passa að skilja smá kartöflu eftir í köntunum svo hægt sé að fylla hana. 

Bátunum komið fyrir í eldföstu móti, nokkrum bitum af fetaosti ásamt olíunni smurt í botninn og saltað og piprað. Mótið sett inn í ofn við 200 gráður í nokkrar mínútur meðan fyllingin er undirbúin.


Laukurinn og paprikan skorin í litla bita og steikt á pönnu upp úr olíu. Gulu baununum bætt við á pönnuna og leyft að brúnast smá. Kjúklingabringa einnig skorin í litla bita og steikt á pönnu upp úr olíu og kryddi. 

Þegar allt er orðið eldað er blandað saman grænmetinu, kjúklingabitunum, stöppuðu sætu kartöflunni (það sem var tekið úr til þess að búa til báta) ásamt nokkrum bitum af fetaosti í skál.



Bátarnir teknir úr ofninum og fyllingunni skóflað upp í. Rifnum osti stráð yfir og mótið sett aftur inn í ofn í um 10 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður.



Gott að bera fram með fersku salati og sósu.





Stundum geri ég extra mikið af fyllingu svo hún kemst ekki öll fyrir í bátunum, en þá er um að gera að setja restina í eldfastamótið og smá ost yfir það líka og borða svo með fylltu kartöflunni eins og sést á myndunum hérna fyrir ofan :)

Fáránlega gott! 
Njótið!


2 ummæli:

  1. Þetta verð eg að prufa i næstu viku!!

    SvaraEyða
  2. Þetta er OF girnilegt!! þú ert snillingur
    prufa þetta í vikunni

    SvaraEyða