sunnudagur, 1. nóvember 2015

Heitur eplaréttur með karamellusósu

Gleðilegan nóvember!!
Þessi réttur á svo sannarlega vel við á köldum vetrarkvöldum og er alltaf jafn góður! Ég hef gert hann aftur og aftur og mun örugglega halda því áfram út alla ævina. Must að eiga einn svona góðan og einfaldan köku-rétt í pokahorninu þegar vinkonurnar eru á leiðinni í heimsókn, spilakvöld er í vændum nú eða bara þegar ykkur langar í eitthvað sætt.


Eplaréttur

Með súkkulaði og salthnetum


5-6 græn epli
3 msk sykur
3 tsk kanill
1 tsk vanilludropar
60-80 gr saxað súkkulaði / saxað pipp súkkulaði með karamellu

80 gr smjör
80 gr hveiti
80 gr sykur
50 gr hafrar
Salthnetur

Takið hýði og kjarna af eplunum og skerið í litla bita. Setjið eplabitana í skál og blandið sykri, kanil og vanilludropum við eplin. Því næst eru eplabitarnir settir í eldfast mót og söxuðu súkkulaði dreift yfir.


Blandið smjöri, hveiti, sykri og haframjöli saman í skál með höndunum svo úr verði einskonar deig. Deiginu er svo dreift yfir eplin og salthnetur settar yfir í lokin eftir smekk.
Inn í ofn við 180°C í um 35-40 mínútur.

Hugmyndir:

  • Hægt að sleppa saxaða súkkulaðinu og setja súkkulaðirúsínur í staðin
  • Hægt að nota saxaðar pekanhnetur í staðin fyrir salthnetur

Á meðan rétturinn er í ofninum er gott að gera karamellusósu til að bera fram með réttinum. Annars mæli ég líka með GOTT karamellusósunni sem fæst í Hagkaup.



Karamellusósa
- Sama sósa og ég nota á Rice krispies kökuna -
1 poki Góu karamellukúlur
1/2 dl rjómi


Bræða kúlurnar og rjóman saman í potti við vægan hita.
ATH. ef þið viljið hafa sósuna aðeins þynnri bætið þá við meiri rjóma!



Njóta með vanilluís og karamellusósunni..... nammm!!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli